Close

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Barnakennsla


Börn í bahá'í barnakennslu
Börn í bahá'í barnakennslu.

Börnin er dýrmætasti fjársjóður samfélagsins því að þau bera í sér fyrirheit um framtíðina. Bahá’í viðhorfi tilmenntunar er best lýst með þessum orðum Bahá'u'lláh:

"Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim."

Börnin eru framtíð samfélagsins og því líta bahá’íar svo á að andleg uppfræðsla þeirra sé mikilvægasta þjónustan sem hægt er að veita. Bahá’í samfélagið hefur boðið upp á barnakennslu þar sem höfuðáhersla er lögð á að börnin tileinki sér dyggðir og mannkosti. Kennslan fer fram í bahá’í miðstöðvum eða heimilum og áhersla lögð á að sem flest börn geti notið góðs af kennslunni. Rit bahá’í trúarinnar staðfesta að andleg fræðsla sé grunnþáttur í menntaferli sem leiðir til þess að mannsandinn eflist og umbreytist. Hvert barn er einstætt og Guð hefur gætt það sérstökum hæfileikum og eiginleikum. Tilgangur kennslunnar er að hjálpa börnunum að tileinka sér andlegar dyggðir og laða fram þá ómetanlegu gimsteina sem í þeim búa. Kennslan felur í sér ýmiskonar lærdómsþætti; tilvitnanir eru lagðar á minnið, sögur sagðar, farið í leiki og sungið. Listum og listhneigð barna er gert hátt undir höfði.

Börnunum er kennt að tileinka sér viðhorf ástar, skilnings og umburðarlyndis, hegðun þeirra fáguð með sköpun ánægjulegs en agaðs námsumhverfis þar sem virðing er borin fyrir meðfæddri göfgi barnsins. Kennararnir fá sérstaka þjálfun sem hjálpar þeim að auka skilning sinn á andlegum meginreglum varðandi menntun og kenna börnunum með ást og aga. Nokkrar af þeim dyggðum sem kenndar eru:

Örlæti • Réttlæti • Gæska • Eining • Hugrekki • Sannsögli • Að treysta á ást Guðs • Trúverðugleiki • Auðmýkt • Þjónusta við mannkynið