PORT MORESBY, Papúa Nýju-Gíneu — Þegar sólin rís yfir Port Moresby lýsir hún upp einstakt ofið ytra byrði sem umvefur bahá’í tilbeiðsluhúsið sem þar er verið að reisa. Hönnun framhliðarinnar sem lauk nýlega - og sótti innblástur í hefðbundinn vefnað - er táknræn fyrir einingu og samlyndi fólks af mismunandi bakgrunni víðsvegar um Papúa Nýju-Gíneu.
Í landi þar sem er að finna meira en 1.000 þjóðernishópa er þetta heilaga mannvirki, sem nú er á lokastigi, ábending til þeirra allra. Kevin Tagos, sem starfar við bygginguna, segir: „Við komum frá ýmsum stöðum í Papúa Nýju-Gíneu og lærum hvert af öðru. Við segjum hvert öðru sögur um fegurð tilbeiðsluhússins og hvernig það sameinar okkur.“
Samkvæmt bahá’í kenningum eru tilbeiðsluhúsin mjög þýðingarmiklar stofnanir og áþreifanleg dæmi um hvernig hægt er að flétta saman tilbeiðslu og þjónustu. Þessi hugmynd fær meiri hljómgrunn í samfélögunum umhverfis tilbeiðsluhúsið og þangað koma sífellt fleiri reglulega saman til þess að biðja og íhuga hvernig þau geta þjónað þörfum samborgara sinna.
Fréttina í heild ásamt fleiri myndum má sjá á vef fréttaþjónustu Bahá’í heimssamfélagsins.
[Þýtt af Eðvarði T. Jónssyni]