Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Bahá’u’lláh



 

„Þetta er sá dagur, þegar ágætustu gjöfum Guðs hefur verið úthellt yfir mennina...“  Bahá'u'lláh

 

Hafsjór orða

Kenningar Baháʼuʼlláh sem opinberaðar voru fyrir meira en 150 árum voru ótrúlega framsýnar, m.a. þær sem lúta að einingu mannkyns, einingu trúarbragða, jafnrétti kynjanna og nýju heimsskipulagi.

Helgirit fyrri trúarbragða voru ekki skráð fyrr en mörgum árum eftir andlát stofnandans og frumritin hafa glatast. Þessu er ekki þannig farið með helgirit bahá'í trúarinnar. Tekist hefur að varðveita fjölda frumhandrita sem Baháʼuʼlláh ritaði með eigin hendi, eða ritarar hans skráðu um leið og opinberunin átti sér stað. Talið er að heildarsafn rita hans gæti numið um 100 bindum.

 

Kvikmynd um ævi og kenningar Bahá'u'lláh

 

Fangavist og útlegð

Baháʼuʼlláh fæddist árið 1817 í Teheran, höfuðborg Persíu (nú Íran). Upprunalegt nafn hans var Mírzá Husayn ʻAlí, en síðar varð hann þekktur sem Baháʼuʼlláh, Dýrð Guðs. Fjölskylda hans var rík, því faðir hans var ráðherra við hirð keisarans. Þegar honum bauðst að taka við stöðu föður síns að honum látnum hafnaði hann því. Í stað þess eyddi hann auðæfum sínum til að hjálpa fátækum og nauðstöddum. 

Baháʼuʼlláh gekk strax til liðs við Bábinn og varð öflugasti talsmaður þeirrar trúar sem hann boðaði. Þegar skelfjalausar ofsóknir hófust gegn hinni nýju trú, sem endaði með því að Bábinn var tekinn af lífi og nánast allir lærisveinar hans sömuleiðis, þurfti engum að koma á óvart að Baháʼuʼlláh yrði ekki hlíft. Hann var handtekinn, færður í hlekki og varpað í hræðilega neðanjarðardýflissu í höfuðborginni. Allar jarðneskar eigur hans voru gerðar upptækar. Þegar hann losnaði úr fangelsinu eftir fjóra mánuði, nær dauða en lífi, var hann ásamt fjölskyldu sinni sendur í útlegð um hávetur til Bagdað í Írak.

 

Leiklestur um þjáningar og boðskap Bahá'u'lláh, opinberanda bahá'í trúarinnar

 

Baháʼuʼlláh yfirlýsir köllun sína

Meðan Baháʼuʼlláh var í fangelsinu í Teheran vitraðist honum að enginn annar en hann sjálfur væri sá sem Bábinn hafði boðað að mundi birtast, hinn fyrirheitni allra trúarbragða. Hann hélt því þó leyndu þar til árið 1863, þegar hann var staddur í fallegum garði í útjaðri Bagdað. Við það tækifæri yfirlýsti hann fjölskyldu sinni og nánustu vinum köllun sína.

 

Fangelsið í 'Akká

Fangelsið í 'Akká

Í kjölfarið var hann sendur í útlegð til Tyrklands. Þrátt fyrir þessar ofsóknir laðaðist fólk að Baháʼuʼlláh og boðskap hans. Þá gripu óvinir hans til þess ráðs að varpa honum ásamt föruneyti hans, alls um 70 manns, í rammbyggt fangelsi í borginni ʻAkká í Sýrlandi, sem þá laut yfirráðum Tyrkja. Í dag er þetta landsvæði hluti af Ísrael. 

 

Bréf til leiðtoga mannkyns

Frá Adríanópel og síðar frá ʻAkká sendi Bahá’u’lláh bréf og pistla til konunga, keisara og annarra leiðtoga samtímans, bæði andlegra og veraldlegra. Hann kallaði þá til trúar á málstað sinn og hvatti þá til að jafna ágreiningsmál sín, draga úr vopnabúnaði og helga sig allsherjarfriði. Hann sagði að þeim væri ætlaður ákveðinn tími til að snúa sér til Guðs og koma málunum í lag. Ef þeir gerðu það ekki myndu ógnvænlegar hörmungar steðja að þeim úr öllum áttum. Þeir sinntu þessu engu og spádómur Baháʼuʼlláh rættist.

 

Andlát Bahá'u'lláh

Baháʼuʼlláh lést árið 1892 í Bahjí, skammt norður af ʻAkká. Grafhýsi hans í Bahjí er mesti helgidómur trúarinnar. Þangað koma pílagrímar alls staðar að úr heiminum.

 

Fyrirlestrar og blaðagreinar um ævi og kenningar Bahá'u'lláh

Árið 2017 voru 200 ár liðin frá fæðingu Bahá‘u‘lláh, opinberanda bahá'í trúarinnar. Í tilefni þess lét Andlegt ráð bahá'ía í Reykjavík útbúa námskeið um líf hans og kenningar. Námskeiðið er í átta hlutum. Fyrstu fjórir fyrirlestrarnir eru komnir á YouTube. Hægt er að nálgast þá hér.

Sigurður Ingi Jónsson, bahá'í í Reykjavík, skrifaði ágæta grein um Bahá'u'lláh í tilefni af 200 ára afmælishátíð Hans, árið 2017. Sjá hér.