Vinna, auður og þjónusta í ljósi Bahá'í kenninga var þema í vinnustofu fyrir fullorðna og ungmenni á Sumarmóti Bahá'í samfélagsins sem haldið var í Reykhólaskóla á Reykhólum um mánaðarmótin júní-júlí. Dagskrá var einnig fyrir börn og unglinga. 56 tóku þátt í mótinu sem er fyrsta samkoma bahá'ía á landsvísu fyrir alla aldurshópa sem haldin er á landsbyggðinni frá því að heimsfaraldri kórónuveiru lauk. Mikil gleði og einingarandi ríkti á mótinu. Í vinnustofunni fyrir fullorðna skoðaði Matthías Pétur Einarsson leiðsögn bahá'í trúarinnar um atvinnu, þjónustu og auðsöfnun í ljósi kenninga trúarinnar með þátttakendum. Meðal tilvitnananna sem skoðaðar voru, voru þessi orð Allsherjarhús réttvísinnar, æðstu stofnun bahá'í trúarinnar á heimsvísu, sem kjarnar vel kenningar trúarinnar til veraldlegra gæða:
Framtíðarsýn Bahá’u’lláh ögrar mörgum viðteknum hugmyndum sem er leyft að móta orðræðu samtímans – til dæmis að eigingirni þurfi ekki að hemja, heldur sé hún drifkraftur hagsældar og að framfarir byggist á tjáningu hennar í vægðarlausri samkeppni. Að meta gildi einstaklings einkum út frá hversu miklu hann getur safnað að sér og hversu mikil neysla hans er í samanburði við aðra, er algjörlega framandi bahá’í hugsun. En kenningarnar styðja ekki heldur hástemmdar yfirlýsingar um að auður sé ógeðfelldur eða siðlaus, og meinlætalifnaður er bannaður. Auður verður að þjóna mannkyninu. Nýting hans verður að vera í samræmi við andlegar grundvallarreglur, kerfi verður að mynda í ljósi þeirra. Og með minnisstæðum orðum Bahá’u’lláh: „Ekkert ljós kemst í samjöfnuð við ljós réttlætis. Grundvöllun reglu í heiminum og rósemi þjóðanna byggjast á því.“ (Bréf dagsett 1. mars 2017)
Eftir hádegi á laugardegi var landareign Bahá'í samfélagsins að Skógum heimsótt þar sem ungir sem aldnir lögðu hönd á plóg við að hlúa að skóginum. Unnið var í fjórum hópum. Einn hópur vann að því að færa á betri staði ungar trjáplöntur sem orðið hafa til við sjálfsáningu stærri trjáa, annar gerði við tröppur, sá þriðji bar viðvarvörn á brýr og sá fjórði ruddi göngustíga. Síðan var farið í lautarferð, borðað nesti og sungið, og að lokum gengið um skóginn og fjölbreytileiki trjátegunda og blóma ljósmyndaður.
Hér má sjá nokkrar myndir sem Ólafur Bjarnason tók.
Frá lautarferð í Skógum.