BAHÁ'Í HEIMSMIÐSTÖÐIN — Eftir þrotlausa nákvæmisvinnu er langþráðum áfanga náð — byggingarteymið hefur lokið við að steypa tígulgrindina í helgidómi ‘Abdu’l‑Bahá. Þetta markar ekki aðeins lok þess hluta byggingarinnar sem gerði mestu tæknilegu kröfurnar, heldur einnig hápunktinn í starfinu að steinsteyptum hluta helgidómsins.
Upphaflega vildi teymið hella allri steypunni í einu lagi í mót burðarvirkisins - flókna þakbyggingu sem nú spannar miðtorgið og mannvirkið sjálft. En um miðjan ágúst var ákveðið að hella fyrst hvítu hágæðasteypunni í þakskeggin norðan og sunnan megin.
Hvíta arkitektasteypan hefur mynstraðan áferðarflöt og var valin vegna þess að hún er sýnileg frá torginu, en gráa steypan sést ekki.
Að kvöldi sunnudagsins 27. ágúst hóf teymið vinnu við gráu steinsteypuna og unnið var að því verkefni í samfellt 19 klukkustundir. Alla nóttina og fram eftir degi var nauðsynlegt að tryggja stöðuga steypu til þess að hægt væri að móta einsteinungsfleti án nokkurra samskeyta.
Khosrow Rezai, verkefnastjóri, sagði að við þetta verk hefði „þurft að nota fjórar dælur samtímis á skipulagðan hátt á mismunandi stöðum.”
Amnon Cohen, aðalverktaki, lýsti þessu flókna verkefni: „Það var gríðarleg áskorun að samhæfa dælurnar fjórar til þess að vinnslan skaraðist ekki.”
Til að þetta tækist var tígulgrindinni skipt í fjóra geira og sérstakt teymi vann að hverjum þeirra. „Hvert teymi hafði dælu og vann að sínum sérstaka geira,“ útskýrði Cohen.
„Sérstök aðferð var notuð til að hella steypunni í mótin vegna þess að móta þurfti hana þannig að hún kæmist inn í allar beygjur og horn á pólýstýrín mótunum.”
Önnur áskorun fólst í því að tryggja stöðugt steypuflæði frá hverri dælu. Cohen útskýrði: „Við þurftum að samræma ferðir allra steypubílanna sem komu inn um hliðið svo þeir vissu hvert og að hvaða dælu þeir ættu að fara, og til að tryggja að ekki væru of margir bílar við eina dælu og of fáir við aðra. Það var alltaf röð af bílum við hverja dælu og steypumagninu var jafnað á milli þeirra til að engin misfella yrði á steyptu þakinu.“
Til að tryggja að engin truflun yrði á þessu verki samræmdi teymið sendingar frá fjórum verksmiðjum. Þessi nálgun var nauðsynleg vegna þess steypumagnið gat hugsanlega orðið meira en það sem hver stöð gæti framleitt á sólarhring. Einnig varð að lágmarka tafir á umferð frá hverri steypustöð. Eftir að hafa ráðfært sig við steypustöðvarnar valdi teymið dag þar sem gert var ráð fyrir lágmarks umferð og lágmarks möguleikum á töfum.
Cohen lýsti því hvernig teymið hafði undirbúið sig fyrir mismunandi sviðsmyndir : „Við áttum varabúnað fyrir allt sem upp gat komið, jafnvel steypudælu. Við skipulögðum allt mjög vandlega til þess að ekkert gæti komið okkur á óvart. Við gerðum áætlun og gátlista yfir allar mikilvægu bilanir sem kynnu að verða.“
Allan tímann ríkti mikil eftirvænting og spenna. Mánudagsmorgunn í þessari viku lýsti Cohen því hvernig öllum leið:
„Við náðum markmiðinu sem við settum okkur. Allir eru himinlifandi, jafnvel þótt menn séu þreyttir. Og andinn á staðnum er einstakur. Í fjögur ár lá eitthvað í loftinu hér á svæðinu sem gerði að verkum að menn vildu ná sem allra besta árangri og gera eins vel og þeir gætu. Þeir sjá og skilja að þetta er einstakt mannvirki sem aðeins er hægt að reisa einu sinni á ævinni.“
Rafi Anunu, aðalbyggingarverkfræðingur, lýsti þeim einstæðu áskorunum sem fylgdu þessu verki:
„Allar byggingar sem við hönnum eru venjulega byggðar til að endast í 50 ár. Þessi bygging er hönnuð til að endast í mörg hundruð ár. Þess vegna þarf aðra blöndu af steypu og það þýðir að lágmarksþvermál steypustyrktarjárnsins er stærra. Allt er öðruvísi. Þessi bygging er ekki eins og aðrar byggingar.“
Steinsteypan í tígulgrindinni þarf nú harðna í að minnsta kosti 30 daga áður en hægt er að fjarlægja mótin og þá kemur fullgerða þakbyggingin í ljós í fyrsta sinn.
Á meðan er strax hafist handa að ljúka við austuröxl helgidómsins vegna þess að ekki er lengur þörf á henni í steypuvinnunni. Vinna gengur einnig hratt fyrir sig við ‘Akká gestamiðstöðina. Hún er þegar fullgerð að utan og vinna hafin við innréttingar.
Í myndbandinu hér fyrir neðan lýsir Rezai næstu skrefum nú þegar steypuvinnu helgidómsins er lokið.
Myndirnar hér fyrir neðan gefa hugmynd um erfiðinu sem fólst í ná þessum mikilvæga áfanga.
Seint síðdegis á sunnudegi, steypubílarnir eru nýbyrjaðir að hella gráu steypunni. ‘Akkáborg sést í bakgrunni.
Sólin sest á sunnudagskvöldi þegar vinna er í fullum gangi við að steypa þakið. Tveimur af steypudælunum er komið fyrir á grunni austuraxlarinnar.
Myndasería sem sýnir mismunandi stig við byggingu tígulgrindarinnar, fyrst uppsetningu pólýstýrenmótanna og loks þegar steypunni er hellt í formin.
[Frétt frá Bahá’í heimsfréttaþjónustunni þýdd af Eðvarði T. Jónssyni, myndatextar Róbert Badí Baldursson]