Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Annáll ársins 2024 frá Bahá’í heimsfréttaþjónustunni


31. desember 2024 Höfundur: Þjóðarskrifstofa

BAHÁ’Í HEIMSMIÐSTÖÐIN — Á tímum þegar samfélög um allan heim eru að leita nýrra leiða fram á við vísa ótal sögur af þrautseigju og von veginn fram. Bahá’í  heimsfréttaþjónustan lítur til baka og skoðar nokkrar af þeim sögum sem fjallað var um árið 2024 og gefa innsýn í viðleitni bahá’ía til að stuðla að friðsælli heimi.

Ungt fólk stuðlar að friðarmenningu

Ríkjandi viðhorf draga oft á tíðum upp þá mynd af unglingum að þeir séu neytendahópur sem þurfi að gera til geðs eða þeir séu vandamál sem þurfi að leysa. En um allan heim er annar veruleiki að mótast. Ungt fólk í ólíkum samfélögum sýnir ótrúlega getu til að efla einingu. Langt frá upphrópunum fyrirsagna vindur annarri sögu fram í  þeim rýmum þjóðfélagsins sem minnst láta yfir sér.

Í rólegum hluta Sameinuðu arabísku furstadæmanna breytti hópur ungmenna, innblásinn af þátttöku sinni í bahá’í siðferðisfræðslu, vannýttri lóð í blómlegan samfélagsgarð sem hefur vakið ábyrgðartilfinningu meðal meðlima samfélagsins um samvinnu og umhyggju sem  nær út fyrir þeirra eigin fjölskyldur.

Ungt fólk um allan heim er að uppgötva möguleikana á því að leggja sitt af mörkum til friðarmenningar í þjóðfélögum sínum. Þátttakandi á ráðstefnu í Níger, þar sem 300 ungmenni komu saman, sagði: „Ungt fólk stendur frammi fyrir mikilvægu vali. Við getum annaðhvort verið óvirk gagnvart öflum sem ógna samfélagslegum sáttum... eða stuðlað að andlegri og siðferðilegri menntun næstu kynslóðar.“

Þegar ungmenni rísa upp til að þjóna byrja múrar að falla. Þetta var meðal þess sem um 700 ungmenni frá öllu Ontario veltu fyrir sér þegar þau komu saman á tveggja daga ráðstefnu til að kanna hvað það þýðir að vera „friðariðkandi“ í heiminum í dag.

Í Þýskalandi gerði hópur ungmenna sem tók þátt í bahá’í siðferðisfræðslu kvikmynd til að kanna málefni sem höfðar sterkt til ungs fólks í dag: áhrif samfélagsmiðla á raunverulega vináttu.

Vonir vakna

Hvort sem allt lék í lyndi eða kreppur steðjuðu að komu nágrannar sem áður voru ókunnugir til að fylla hvern annan andagift og veita styrk.

Þegar verstu flóð í 80 ár skullu á Rio Grande do Sul ríki í Brasilíu, komust íbúar þorpa og hverfa á hamfarasvæðunum, þar sem samfélagsuppbygging bahá’ía hafði náð fótfestu, fljótt að því hvernig getan til að byggja upp sterk vinatengsl, helgunar- og einingaranda fann sér farveg í samræmdum hjálparaðgerðum meðan á hamförunum stóð.

Á samkomum á ‘Akká-Haifa svæðinu var stuðlað að hlýjum og nánum samskiptum vina og nágranna, óháð menningarlegum eða trúarlegum bakgrunni. Einn þátttakandi, Naim Obeid, framkvæmdastjóri A-CAT samtakanna, fangaði innsta kjarna þessara samkoma þegar hann sagði: „Þegar fólk með ólík sjónarhorn hittist í slíkum rýmum hittir það „hina“ og „hinir“ verða „við“.“

Að stuðla að þjóðfélagslegri samheldni

Reynsla grasrótarsamfélaga um allan heim vekur margskonar fólk til vitundar um sameiginlegt manngildi sitt og miðlar framfarasýn sem yfirstígur hindranir nútímans.

Farrukh Rasulov, sem starfar fyrir skrifstofu almannamála hjá Bahá’í samfélaginu í Úsbekistan, sagði í hlaðvarpsþætti fréttaþjónustunnar að „ef við viðurkennum og samþykkjum einingu mannkynsins er ekkert svigrúm fyrir fordóma.“

Fréttaþjónustan greindi frá viðleitni Alþjóðlega bahá’í samfélagsins (BIC) og bahá’í þjóðarsamfélaga um allan heim til leggja af mörkum til umræðna um frið og einingu í öllum sínum víddum.

Undanfarin ár hefur Alþjóðlega bahá’í samfélagið haldið áfram að leggja af mörkum til umræðna á alþjóðavettvangi um framtíð mannkyns. Fulltrúar samfélagsins tóku þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um framtíðina í New York.

Alþjóðlega bahá’í samfélagið sendi einnig frá sér yfirlýsingu í tilefni leiðtogafundarins, þar sem alþjóðlegum stjórnendum var boðið að íhuga forsendur og þýðingu nýrrar grundvallarmeginreglu – einingu mannkyns.

Með þátttöku sinni í borgaralegri ráðstefnu í Naíróbí í Kenía og með ýmsum framtaksverkefnum þar sem hnattrænir stjórnarhættir voru kannaðir lagði Alþjóðlega bahá’í samfélagið áherslu á gagnkvæm grundvallartengsl okkar.

Í hlaðvarpsþætti fréttaþjónustunnar var fjallað um víðara samhengið í starfi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins um áratuga skeið, og um störf þess í dag og framlag þess til samræðna um framtíð og velferð allra þjóða.

Skrifstofa Alþjóðlega bahá’í samfélagsins í New York sendi frá sér stutt myndband undir yfirskriftinni Gagnkvæmum tengslum tekið opnum örmum: Undirstöður heims á umbreytingaskeiði þar sem  heyra má raddir ungmenna um alþjóðleg gagntengsl. Í yfirlýsingum frá skrifstofum BIC í New York og Brussel var lögð áhersla á það mikilvæga hlutverk ungmenna að vera aðalgerendurí mótun þjóðfélagslegra framfara.

Skrifstofa almannamála hjá Bahá’í samfélaginu í Bandaríkjunum og Aspen stofnunin hafa gefið út safn ritgerða þar sem bandarísk frásagnarfræði (sagnahefð) er skoðuð út frá trúarlegu sjónarhorni.

Bahá’í samfélög um allan heim lögðu sitt af mörkum til að stuðla að friðar- og sameiningarumræðu. Í Lúxemborg stefndi skrifstofa almannamála hjá Bahá’í samfélaginu saman fræðimönnum og fulltrúum borgaralegra samtaka til að kanna hlutverk samfélagsins í að sigrast á óvirkni. Í Kasakstan voru haldnar fjölmargar þjóðarsamkomur og fjölskyldulífið skoðað í ljósi hugmynda um mannlegt eðli þar sem er litið svo á að sérhver manneskja sé göfug í eðli sínu. Á Indlandi var haldið málþing í grennd við bahá’í tilbeiðsluhúsið í Nýju-Delí þar sem skoðað var hvernig listræn tjáning, sem byggir á andlegum meginreglum, getur stuðlað að félagslegum umbreytingum.

Í hlaðvarpsþætti fréttaþjónustunnar ræddi Hoda Mahmoudi, sem gegnir bahá’í prófessorsstöðu um frið við Háskólann í Maryland í Bandaríkjunum, um sérstaka nálgun embættisins að eflingu skoðanaskipta og skilnings auk rannsóknaverkefna á þess vegum um friðaruppbyggingu og þróun.

„Friður felur í sér miklu meira en að útrýma stríði,“ sagði Mahmoudi. „ Það sem við höfum áhuga á er hvernig fjarlægja megi hindranir í vegi friðar.“ Hún sagði að til þess þyrfti að skoða rótgróin samfélagsleg viðfangsefni sem koma í veg fyrir að til verði friðsamlegt samfélag í raun.

Samræmi vísinda og trúarbragða–leið til friðsamlegra þjóðfélaga

Samfara auknum áhyggjum af trúarlegum öfgum og efasemdum um vísindi hafa samræður um samhljóm vísinda og trúar orðið mikilvægar þegar tekist er á við þær flóknu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Á ráðstefnu í Aserbaídsjan útskýrði Ramazan Asgarli, meðlimur Andlegs þjóðarráðs bahá’ía í Aserbaídsjan, samhljóm vísinda og trúar: „Annað leiðir í ljós ... hluti á efnislega sviðinu með vitsmunalegri rannsókn, en hitt hjálpar okkur að ná áttum í lífinu og leita að merkingu. ... En hvort tveggja þjónar velferð mannsins.“

Undanfarin ár hefur umræðan um allan heim beinst að því að kanna hvaða áhrif þessi hugmynd hefur á hin ýmsu svið mannlegrar viðleitni, þar á meðal tækni.

Janice Ndegwa, doktorsnemi í sagnfræði og þátttakandi á 48. ársráðstefnu Bahá’í fræðisamtaka Norður-Ameríku, lagði áherslu á gagnkvæm áhrif tækni og samfélags. Hún útskýrði hvernig bahá’í meginreglur, einkum hugmyndin um göfgi hverrar manneskju, geta vísað veginn í þróun og innleiðingu nýrrar tækni: „Ef við komum fram við allar manneskjur sem virka þátttakendur í myndun nýrrar þekkingar, þá væri hugmyndin um að við getum einfaldlega tekið tækni sem framleidd er í einum ... hluta heimsins og innleitt hana óbreytta og í heild sinni í öðru samfélagi ekki framkvæmanleg.“

Umræður um samhljóm vísinda og trúar auðguðu sjónarmið á samband mannkyns við náttúruna.

Sendinefnd frá Alþjóðlega bahá’í samfélagsins sótti loftslagsráðstefnuna COP29 í Aserbaídsjan.

Í ritgerð sem birtist í The Bahá’í World var skoðað hvernig einstaklingar, samfélög og stofnanir geta stuðlað að sjálfbærari framtíð.

Í Kólumbíu voru nokkrir þátttakendur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP16) í Kali, sem sáu hvernig andlegar meginreglur geta leiðbeint varðandi  umhverfisvernd er þeir heimsóttu skóg sem liggur að bahá’í tilbeiðsluhúsinu í Norte del Cauca-héraði. Skógurinn hefur verið ræktaður með trjám sem eru upprunaleg í flóru héraðsins.

„Þetta framtak endurspeglar þá bahá’í meginreglu að mannkynið beri heilaga ábyrgð á að vera tilsjónaraðili náttúrunnar,“ sagði Ximena Osorio, starfsmaður á skrifstofu ytri samskipta  hjá Bahá’í samfélaginu í Kólumbíu. „Þegar við hlúum að náttúrunni af ást og visku,“ hélt hún áfram, „þá verndum við ekki aðeins líffræðilegan fjölbreytileika heldur hlúum einnig að andlegum vexti okkar og þroska.“

Í nýrri yfirlýsingu frá skrifstofu Alþjóðlega bahá’í samfélagsins í Brussel um framtíð landbúnaðarins er kannað hvernig meginreglan um einingu mannkyns ætti að vera grundvöllur allra umræðna um landbúnað.

Jafnrétti kvenna og karla er forsenda friðar

Í allir þessari viðleitni hefur ekki einungis verið litið á frið sem lausn frá átökum heldur sem ástand þar sem ríkir réttlæti, samlyndi og jafnrétti kvenna og karla.

Á 68. fundi framkvæmdastjórnar Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna (CSW) lagði Alþjóðlega bahá’í samfélagið áherslu á mikilvægi þess að stofnanir hjálpuðu til við að ryðja úr vegi hindrunum fyrir fullri þátttöku kvenna í þjóðfélaginu. Þessi hugmynd er kjarninn í yfirlýsingu sem Alþjóðlega bahá’í samfélagið sendi frá sér í tilefni fundarins og byggir á langvarandi framlagi þess til umræðu um jafnrétti kvenna og karla á alþjóðasviðinu.

Í röð ráðstefna sem haldnar voru í Bahrein, var fjallað um hvernig fjölskyldan, sem undirstöðueining þjóðfélagsins, hefur einstaka möguleika til að stuðla að umbreytingum sem ná langt út fyrir nærumhverfi hennar og stuðla að friði og einingu í hinu víðara samfélagi. Á ráðstefnu í Bólivíu var fjallað um mikilvægi menntunar kvenna fyrir samfélagslegar framfarir.

Í hlaðvarpsþætti fréttaþjónustunnar sagði Bhavna Anbarasan, meðlimur álfuráðs bahá’ía í Asíu, frá því hvernig bahá’í samfélagsuppbygging í þorpum Bihar-fylkis á Indlandi er að skapa nýja jafnréttismenningu.

Júnímánuður markaði eitt ár frá upphafi herferðarinnar „SagaOkkarErEin“ (OurStoryIsOne), en hún kom af stað skapandi listtjáningu til að heiðra minningu 10 bahá’í kvenna, sem hengdar voru í Shiraz í Íran fyrir 41 ári síðan, þar á meðal á Íslandi.

Ný mynstur skjóta rótum

Eftir því sem þessar samræður um samfélagslegan samhljóm dýpkuðu og sameiginleg viðleitni styrktist, blésu blómleg þjónustu- og tilbeiðslumynstur mönnum merkingu og von í brjóst.

Gestir í hlaðvarpsþætti fréttaþjónustunnar skoðuðu lifandi samband þjónustu og tilbeiðslu.

Meðlimir bahá’í samfélaga frá ýmsum löndum tóku þátt í samræðum til að ræða um afl bænarinnar og mótun öflugs samfélagslífs.

Nazneen Rowhani frá Indlandi sagði frá fallegu dæmi úr bahá’í samfélögum víðs vegar um landið. „ Þegar fólk skilur að það sem skiptir máli er sálin en ekki líkaminn, þá hverfur gjarnan sá munur sem erfðastéttakerfið hefur í för með sér.“

Í öðrum hlaðvarpsþætti var fjallað um umbreytingu einstaklinga og hópa í Kenía.

Í Síle var tveggja daga samkoma í bahá’í tilbeiðsluhúsinu í Santiago í tilefni af átta ára afmæli þess. Meira en 600 manns komu saman og fengu tækifæri til að ígrunda hvernig þessi helga bygging hefur orðið að miðpunkti fyrir andlega og félagslega umbreytingu í sílesku samfélagi.

Í friðsælu umhverfi Hofheim-Langenhain var tekið á móti gestum víðs vegar að úr Evrópu í tilefni af 60 ára afmæli bahá’í tilbeiðsluhússins þar. Meðal þeirra sem ávörpuðu fundargesti var Christian Heinz, dómsmálaráðherra þýska sambandsríkisins Hesse, sem velti fyrir sér þýðingu musterisins: „Húsið er sprottið af þeirri sannfæringu að friður meðal fólks geti aðeins ríkt í samfélagi sem er öllum opið. Þessi staður stendur ... sem athvarf fyrir alla.“

Nýtt upphaf

Yfir 1.000 manns komu saman í Port Moresby í Papúa Nýju-Gíneu í tilefni af vígslu þjóðartilbeiðsluhúss bahá’í trúarinnar þar í landi. Powes Parkop, héraðsstjóri í höfuðborginni, sagði: „Tilbeiðsluhúsið er ekki bara efnisleg bygging. Það er leiðarljós sem býður öllum að koma saman í bæn, ígrundun og samhljóman.“

Eins og hjartsláttur sem styrkist, hefur sameiningarandinn flætt um fleiri heimshluta með tilkynningu um þrjú ný bahá’í tilbeiðsluhús, tvö þjóðarmusteri í Brasilíuborg í Brasilíu og Lilongwe í Malaví auk svæðismusteris í Batouri í Kamerún.

Kitáb-i-Aqdas, helgasta bók Bahá’u’lláh, kom út í fyrsta sinn á pólsku og svahilí.

Vonbjört framtíð

Í gegnum ótal aðgerðir í þágu sameiginlegra hagsmuna á liðnu ári sáu menn um allan heim vonarglampa um bjarta framtíð mannkyns.

Á meðal fjölmennra þjóða og trúarhópa Indlands hefur sýn á einingu laðað að hjörtu manna þvert á allar gjár og hún kom áþreifanlega í ljós meðal þeirra sem komu saman til að minnast hundrað ára afmælis Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Indlandi.

Í Síle endurómaði sama von þar sem útvarpsstöð hefur fléttað saman visku forfeðranna við andlegar meginreglur bahá’í kenninganna um fjögurra áratuga skeið.

Óbilandi skuldbinding um frið 

Í Íran, þar sem heilt samfélag hefur mátt þola kerfisbundnar ofsóknir kynslóð eftir kynslóð, má sjá ótrúleg viðbrögð. Mina Yazdani, prófessor í sagnfræði við Eastern Kentucky háskólann í Bandaríkjunum, kannaði hversu mikið bahá’í samfélagið í Íran hefur lagt af mörkum til íranska þjóðfélagsins.

Nýlega fordæmdu Sameinuðu þjóðirnar mannréttindabrot gegn bahá’íum í Íran í nýrri ályktun þar sem fram kom að bahá’íar og aðrir sættu „viðvarandi ströngum hömlum og auknum takmörkunum“ varðandi réttinn til hugsana-, samvisku- og trúfrelsis. Áður birti hópur 18 sérstakra skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna og einstaklinga í sérfræðingahópi Sameinuðu þjóðanna sameiginlegt bréf þar sem Íslamska lýðveldið Íran var ávítt fyrir árásir á bahá’í konur.

Jafnvel á erfiðustu tímum þegar meðlimir bahá’í samfélagsins í Jemen voru fangelsaðir, brugðust þeir ekki við með því að hörfa, heldur að sækja lengra út á við – þjóna, stuðla að sameiningu og uppbyggingu. Eins og einn meðlimur samfélagsins sagði: „Við erum ekki bara að byggja upp betri samfélög, við erum að hlúa að framtíðarsýn fyrir Jemen. Það er framtíð þar sem hver og einn, óháð bakgrunni, getur lagt sitt af mörkum til sameiginlegra framfara okkar.“

Boðberi friðar

Í viðleitni sinni til að stuðla að samstilltara samfélagi sóttu ótal hjörtu innblástur í líf ‘Abdu’l‑Bahá sem boðbera friðar.

Meðan helgidómur hans rís vísa fordæmi og orð ‘Abdu’l‑Bahá mannkyni veginn fram á við.

Mikil framþróun hefur orðið í byggingu gestamiðstöðvarinnar í ‘Akká undanfarið ár.

Á meðan ‘Abdu’l‑Bahá var fangi í ‘Akká stýrði hann byggingarframkvæmdum við annan helgidóm, helgidóms Bábsins á Karmelfjalli. Á þessu ári var viðamiklum framkvæmdum lokið sem fólu í sér þætti til að auka aðgengi fyrir hreyfihamlaðra.

Á þessu ári var einnig lokið við að gera upp íbúð í Bristol í Bretlandi þar sem ‘Abdu’l‑Bahá dvaldi og hélt opinberar kynningar á sögulegum ferðum sínum um Vesturlönd.

Skilaboð hans eru enn skýr: „... fyrst skal koma á friði meðal einstaklinga, uns hann leiðir að lokum til friðar meðal þjóða.“