Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Mikil ánægja með fyrirlestur um tengsl jafnréttismála við hagsæld


30. nóvember 2017 Höfundur: siá
Dr. Augusto Lopez-Claros

Dr. Augusto Lopez-Claros flytur ræðu sína

Rúmlega tuttugu manns mættu í gærkvöldi á fyrirlestur í Bahá’í þjóðarmiðstöðinni að Kletthálsi 1 til að hlýða á fyrirlestur Dr. Augusto Lopez-Claros um tengsl kynjajafnréttis við hagsæld. Mikil ánægja var með fyrirlesturinn. Dr. Augusto sýndi fram á hagnýtar afleiðingar þess fyrir velferð þjóðfélagsins að tryggja óheft aðgengi kvenna að menntun og fulla þátttöku þeirra í atvinnulífinu, og að tryggja bæði tækifæri og hvata til að konur komi að ákvarðanatöku í stjórnmálum og í stjórnum fyrirtækja.

Jafnrétti kynjanna er ein af meginkenningum bahá’í trúarinnar og vísaði Dr. Augusto Lopez-Claros í ræðu ‘Abdu’l-Bahá í París í byrjun síðustu aldar, þar sem hann sagði að „svo lengi sem konum er meinað að ná æðstu möguleikum sínum munu karlar ekki geta öðlast þann mikilleika sem gæti ella fallið þeim í skaut.“

Í þessu sambandi sagði hann frá reynslu og niðurstöðum sínum af rannsóknum og starfi fyrir hönd alþjóðastofnana eins og Alþjóðaefnahagsráðsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sérstaklega sagði hann frá niðurstöðum skýrslu á vegum Alþjóðabankans sem ber heitið „Konur, viðskipti og lögin“ (Women, Business and the Law) þar sem ýmsir þættir löggjafar í 189 löndum eru skoðaðir með tilliti til þess hvort löggjöf sé heftandi eða hvetjandi fyrir þátttöku kvenna í atvinnulífi og menntun.

Sem dæmi um heftandi lög nefndi Augusto lög, sem kveða á um að konur þurfi leyfi eiginmanns eða föður til að fara út úr húsi eða stofna fyrirtæki og lög sem koma í veg fyrir þátttöku þeirra í tilteknum atvinnugreinum. Nefndi hann í því sambandi að bent hefði verið á að í Rússlandi væri að finna lagagreinar sem kæmu í veg fyrir þátttöku kvenna í meira en 400 atvinnugreinum. Þetta hefur þýðingu þegar kemur að launamismun kynjanna þar sem þessi störf eru oftar en ekki vel launuð, sem hefur neikvæð áhrif á launamun kynjanna þar sem konur geta ekki starfað innan þessara geira.

Dr. Augusto Lopez-Claros ræðir við fundargesti

Dr. Augusto Lopez-Claros ræðir við fundargesti

Þegar konur njóta ekki sömu tækifæra og geta ekki komist í áhugaverð störf hefur það letjandi áhrif á stúlkur að sækja sér menntun. Þær sjá ekki að þær hafi möguleika á að bæta líf fjölskyldna sinna og stuðla að velferð þeirra.

Nefndi hann að það hafi gefist vel að hafa kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og á þjóðþingum. Þegar konur kæmu að ákvarðanatöku hafi það jákvæð áhrif á nýtingu fjármuna. Fjármunum sé frekar varið í málefni sem stuðli að raunverulegri velmegun, til að mynda heilsugæslu og menntun barna.

Einnig nefndi hann að fátækt væri ekki jafn mikið atriði þegar kæmi að jafnrétti kvenna eins og stundum væri haldið fram, að þegar þjóðfélög næðu fram efnahagslegri velmegun myndu jafnrétti komast á nokkurn veginn af sjálfu sér. Fátækt væri engin afsökun fyrir því að veita ekki konum réttindi og tækifæri og hvata til þátttöku í þjóðlífinu til jafns við karla. Það sýndi sig að efnahagur hefði ekki endilega mikið að segja um stöðu jafnréttismála. Á heildina litið hefðu orðið framfarir í jafnréttismálum um allan heim á undanförnum áratugum, þótt þær hafi vissulega verið hægari en óskandi væri.

Fyrir þá sem misstu af fyrirlestrinum má benda á eftirfarandi viðtal á Youtube, þar sem Dr. Augusto Lopez-Claros fjallar um mikið af þeim málefnum sem bar á góma í gærkvöldi: https://www.youtube.com/watch?v=KY7g3oJQYQU&list=PLnmcygaoiY_4wj6TvLFY2fl9rpc6aHKPf

-Róbert Badí Baldursson