Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Glatt á hjalla á 9. degi Ridván hátíðarinnar


30. apríl 2018 Höfundur: siá
Gestir hlýða á dagskrá hátíðarinnar

Gestir hlýða á dagskrá hátíðarinnar

Bahá'íar og vinir þeirra hittust í þjóðarmiðstöðinni sunnudaginn 29. apríl til að halda upp á 9. dag Ridván hátíðarinnar. Andleg svæðisráð bahá'ía í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði héldu sameiginlega upp á daginn. Ridván hátíðin er ein mesta hátíð ársins en þá er þess minnst þegar Bahá'u'lláh, opinberandi bahá'í trúarinnar, lýsti yfir köllun sinni sem boðberi Guðs. Það gerðist í garði rétt fyrir utan Bagdað, árið 1863.

Samkoman í þjóðarmiðstöðinni hófst með sýningu nokkurra tónlistarmyndbanda og helgistund. Farið var með bahá'í bænir og lesið úr helgiritum trúarinnar. Þessu næst flutti Hafdís Ásgeirsdóttir ræðu dagsins og Sandra Júlía Matthíasardóttir söng og spilaði eitt lag á gítar.

Guðrún Bjarnadóttir gestkomandi frá Færeyjum og Patricia Brizuela-Castañeda

Guðrún Bjarnadóttir gestkomandi frá Færeyjum og Patricia Brizuela-Castañeda

Þegar gestirnir höfðu gætt sér á gómsætum kaffiveitingum var haft samband við nokkra bahá'ía í gegnum myndsíma Facebook. Fyrst náðist samband við meðlimi Andlegs þjóðaráðs sem eru nú staddir á alþjóðaþinginu í Landinu helga til að kjósa Allsherjarhús réttvísinnar, æðstu stofnun trúarinnar, og til að samráðgast við meðlimi bahá'í alþjóðasamfélagsins um málefni trúarinnar. Íslenski hópurinn var staddur á veitingahúsi í 'Akká þegar haft var samband við þau. Auk átta þjóðarráðsmeðlima var Nadia Helga Loftsdóttir líka viðstödd, en hún starfar sem sjálfboðaliði við Bahá'í heimsmiðstöðina. Einnig var skipst á kveðjum við bahá'ía á Akureyri, Ísafirði og Selfossi í gegnum myndsímann.

Ingólfur Steinsson og Óskar Guðnason skemmtu gestum með söng

Ingólfur Steinsson og Óskar Guðnason tóku lagið

Eftir matinn spiluðu félagarnir Óskar Guðnason og Ingólfur Steinsson nokkur lög og fengu fólkið í salnum til að taka undir í söngnum. Meðal gestanna var Guðrún Bjarnadóttir bahá'í brautryðjandi í Færeyjum. Hún var stödd hér á landi í öðrum erindagjörðum, en nýtti sér tækifærið til að hitta bahá'í fjölskyldu sína í leiðinni. Pétur Þormar tók meðfylgjandi myndir. Fleiri myndir hér.