Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

BIC New York: Aukinn stuðningur við ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem Íran er gagnrýnt fyrir ofsóknir gegn bahá’íum


23. desember 2024 Höfundur: Þjóðarskrifstofa
Mynd af fánaborg við höfuðstöðvar SÞ.

Íslamska lýðveldið Íran hefur hlotið ávítur Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Áttatíu lönd greiddu atkvæði með ályktuninni, 27 voru á móti og 68 sátu hjá.

Íslamska lýðveldið Íran hefur hlotið ávítur Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna fyrir mannréttindabrot sín, meðal annars á meðlimum bahá’í samfélagsins. Þetta kemur fram í nýrri ályktun þar sem segir að bahá’íar og aðrir þurfi að sæta „viðvarandi ströngum hömlum og auknum takmörkunum“ varðandi réttinn til hugsana-, samvisku og trúfrelsis.

Áttatíu lönd greiddu atkvæði með ályktuninni, 27 voru á móti og 68 sátu hjá.

Atkvæðagreiðslan er til marks um aukinn stuðning Allsherjarþingsins við þessa árlegu ályktun en árið 2023 greiddu 78 atkvæði með henni.

Kanada var flutningsaðili ályktunartillögunnar og 49 aðildarríki voru meðflutningsaðilar, þar á meðal Ísland. Þriðja nefnd þingsins samþykkti hana í nóvember áður en hún var afgreidd af sjálfu Allsherjarþinginu. Í ályktuninni er Íran einnig hvatt til að breyta lagagreinum 499 og 500 bis í refsilöggjöf sinni.

Lagagreinarnar gera trúarlega tjáningu annarra en múslima refsiverða. Bæði viðurkenndir minnihlutahópar og trúarlegir minnihlutahópar sem ekki eru viðurkenndir, eins og Bahá’í samfélagið, sæta tilhæfulausum sakargiftum. Bahá’íar hafa verið handteknir, réttað yfir þeim án sannana og þeir fangelsaðir með vísan til þessara greina.

Bahá’íar hafa verið skotspónn hatursorðræðu og áróðurs, takmarkana á menntun og atvinnu og gerræðislegrar upptöku og eyðileggingar eigna, segir í ályktuninni.

Þar segir einnig að bahá’í samfélagið verði fyrir „síauknum og uppsöfnuðum áhrifum langvarandi ofsókna, þ.m.t. árásum og áreitni, og sæti auknum hömlum og kerfisbundnum ofsóknum af hálfu stjórnvalda í Íran. „Vegna trúar sinnar hafa bahá’íar sætt fjöldahandtökum og hlotið langa fangelsisdóma, auk þess sem þekktir meðlimir hafa verið handteknir og eignir hafa verið gerðar upptækar og eyðilagðar í auknum mæli,“ segir í ályktuninni.

„Það gleður Alþjóðlega bahá’í samfélagið að sjá þessa gríðarlega mikilvægu ályktun Sameinuðu þjóðanna staðfesta á allsherjarþinginu,“ sagði Bani Dugal, aðalfulltrúi Alþjóðlega bahá’í samfélagsins hjá SÞ.

„Alþjóðasamfélagið verður ávallt að standa fast á þeirri skyldu sinni að standa vörð um mannréttindi. Stjórnvöld í Íran hafa aldrei viðurkennt réttmæti þessara áhyggjuefna og ekki heldur staðið við eigin mannréttindaskuldbindingar samkvæmt alþjóðalögum.  Við sjáum að þetta hefur skelfilegar afleiðingar. Bahá’íar og allir viðkvæmir minnihlutahópar í Íran eiga skilið að fá að lifa lífi sínu með reisn og njóta frelsis, og stjórnvöld í Íran verða að virða þessi réttindi,“ bætti hún við.

Í atkvæðagreiðslunni í þriðju nefndinni í nóvember sagði sendinefnd Brasilíu hjá SÞ að hún hefði enn áhyggjur af fréttum af brotum gegn konum, mannréttindafrömuðum og trúar- og þjóðernisminnihlutahópum. „Við ítrekum stuðning okkar við réttindi bahá’ía og annarra minnihlutahópa til að iðka trú sína á frjálsan og friðsamlegan hátt án nokkurrar mismununar.“

Bretland vísaði til nýlegra krafna í írönsku samfélagi um jafnrétti kynjanna og sagði það  „óhugnanlega stigmögnun“ að íranskar bahá’í konur væru gerðar að skotspónum ofsókna í auknum mæli.

Og Ghana undirstrikaði réttindi „allra hópa íransks samfélags, þar á meðal fylgjenda bahá’í trúarinnar sem halda áfram að segja frá því hvernig grafið er undan réttindum þeirra.“

Ástralía, Kanada, Ísrael og Bandaríkin skoruðu einnig á írönsk stjórnvöld að virða réttindi allra trúarminnihlutahópa í landinu.

Línurit sem sýnir þróun atkvæða þegar greiddar hafa verið ályktanir um stöðu mannréttinda í Íran á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Línurit sem sýnir þróun atkvæða þegar greiddar hafa verið ályktanir um stöðu mannréttinda í Íran á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.