Loka

Not a member yet?Register now and get started.

lock and key

Sign in to your account.

Account Login

Lúxemborg: Að sigrast á óvirkni með samfélagsuppbyggingu


13. júlí 2024 Höfundur: Þjóðarskrifstofa
Samsett mynd frá starfi bahá'ía og samstarfsaðila við Lúxemborgarháskóla.

Bahá’íar í Lúxemborg hafa leitt saman fræðimenn og fulltrúa borgaralegs samfélags til að kanna hlutverk samfélagsins í að sigrast á viðfangsefnum óvirkni.

ESCH-BELVAL, Lúxemborg — Undanfarin þrjú ár hefur vaxandi samræða í Lúxemborg beinst að því að kanna hlutverk samfélagsins í að sigrast á áskorunum sem felast í óvirkni og félagslegri sundrung með því að rannsaka rætur slíks samfélagsmeins. Með milligöngu bahá’ía í Lúxemborg er leitast við að brúa bilið milli kenninga og hagnýtra framkvæmda með því að leiða saman fræðimenn og fulltrúa borgaralegs samfélags. Í Lúxemborgarháskóla eru haldnir umræðufundir þar sem leitast er við að efla hugsun um hvernig best sé að stuðla að samheldnara samfélagi.

Jean-Pierre Schmit hjá Bahá’í skrifstofu almannaheilla í Lúxemborg útskýrir að þessar umræður byggi á innsýn frá starfi að samfélagsuppbyggingu sem hvetji þátttakendur til að horfa út fyrir hóp sinna nánustu og leggja sitt af mörkum til að stuðla að velferð í sínu víðara samfélagi.

Robert Harmsen prófessor og þátttakendur í vinnustofu við Lúxemborgarháskóla.

Vinstra megin: Robert Harmsen prófessor, deildarforseti hug-, mennta- og félagsvísindadeildar Lúxemborgarháskóla.

„Það er ekki einfalt að vinna bug á sinnuleysi og stuðla að virkni,“ segir Schmit og bætir við að „sú margþætta áskorun sem fylgir óvirkni er útbreidd í nútímasamfélagi þar sem ólík félagsleg öfl næra þá löngun fólks að láta skemmta sér, allt frá barnæsku.“

Þrátt fyrir þessa áskorun sagði Schmit í samtali við fréttaþjónustuna að samfélagsuppbygging bahá’ía bjóði upp á dýrmæta innsýn. Með þessu fræðslu- og þjónustustarfi skapast umhverfi þar sem þátttakendur sjá sig á sameiginlegri vegferð til að stuðla að félagslegum umbótum með hagnýtum aðgerðum í eigin nærumhverfi.

„Í þessu ferli læra nágrannar að ráðfæra sig saman um tilteknar þarfir, eins og siðferðilega menntun barna sinna,“ sagði hann. Þegar þátttakendur taka á þessum þörfum skilja þeir hver annan betur, sjá meira sameiginlegt en ólíkt og djúp tilfinning fyrir grundvallareiningu mannkynsins byrjar að blómstra.

Árlegar vinnustofur og leshringir sem hittast hálfsmánaðarlega þar sem þessi umfjöllunarefni eru skoðuð með fræðimönnum og aðilum úr borgaralegu samfélagi, hafa verið hluti af framlagi bahá’í samfélagsins til orðræðunnar um félagslega samheldni undanfarin þrjú ár. Vinnustofurnar, sem Robert Harmsen, deildarforseti hug-, mennta- og félagsvísindadeildar, hefur staðið fyrir, hafa verið haldnar í Lúxemborgarháskóla.

Aðal athugunarefni vinnustofanna snýr að því hvernig heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á félagsleg öfl. Annars vegar jók heimsfaraldurinn tilfinningu fyrir umhyggju og samkennd þar sem fólk fylkti liði til að styðja hvert annað. Hins vegar, eins og Harmsen prófessor hefur lagt áherslu á í gegnum vinnustofurnar, jók heimsfaraldurinn einnig á félagslega misskiptingu og ójöfnuð sem fyrir var.

Þátttakendur í fyrstu vinnustofunni árið 2022.

Þátttakendur í fyrstu vinnustofunni árið 2022, sem haldin var í samvinnu við Bahá’í skrifstofu almannaheilla í Lúxemborg ásamt Robert Harmsen prófessor, deildarforseta hug-, mennta- og félagsvísindadeildar Lúxemborgarháskóla.

Þessi tvenns konar áhrif hafa verið þungamiðja umræðunnar og varpað ljósi á möguleikana á aukinni félagslegri samheldni og þær áskoranir sem þarf að takast á við. Schmit sagði að á sama tíma og heilbrigðiskreppan hafi leitt í ljós dýpri ójöfnuð séu samfélög sem hlúa að getu til að þjóna hvert öðru, að læra að sigrast á hugarfarinu „við-á móti-þeim“. Þessi breyting, sagði hann, ýtir undir samfélög sem horfa út á við, eru inngildandi og taka vel á móti fólki af ólíkum uppruna, þar á meðal þeim sem eru nýkomnir til Lúxemborgar.

Lisa McLean, framkvæmdastjóri samfélagsútvarpsins Radio Ara, sem hefur verið þátttakandi til langs tíma, lagði áherslu á mikilvægi vinnustofanna og leshópanna og sagði: „Þær veittu rými til að ígrunda með líkt-þenkjandi fólki og hjálpuðu okkur að skilja reynslu okkar í víðara samhengi.“

Schmit segir að á komandi vinnustofum verði áfram kannað hvað einkenni þróttmikil samfélög sem stuðla að tilfinningu fyrir sameiginlegri sjálfsvitund sem meðlimir einnar fjölskyldu mannkyns.

Þátttakendur í þriðju vinnustofunni við Lúxemborgarháskóla árið 2023.

Þátttakendur í þriðju vinnustofunni við Lúxemborgarháskóla árið 2023.

 

Jean-Pierre Schmit hjá skrifstofu almannaheilla og þátttakendur í vinnustofu við Lúxemborgarháskóla.

Hægra megin: Jean-Pierre Schmit hjá skrifstofu almannaheilla, bahá’í samfélaginu í Lúxemborg.